Fótbolti

Platini vill fjölga dómurum

Michel Platini
Michel Platini AP

Michel Platini, nýkjörinn forseti Knattspyrnusambands Evrópu, vill fjölga dómurum á knattspyrnuleikjum úr þremur í fimm. Auk aðaldómara og tveggja aðstoðardómara, vill Platini planta tveimur dómurum aftan við mörkin til að aðstoða við vafaatriði sem hann segir allt of mörg í leiknum í dag.

"Ég vil fjölga dómurum," sagði Platini í samtali við France Football. "Það er úrelt að nota þrjá dómara því þeir sjá ekki allt sem fram fer á vellinum. Ég vil að tveir dómarar til viðbótar séu á leikjunum, þeir séu yfir 45 ára gamlir og muni ekki þurfa að hlaupa neitt heldur standa aftan við mörkin. Við verðum að sýna heiminum að við séum á móti því að mistök séu gerð í knattspyrnunni," sagði Frakkinn, en bætti við að hann væri á móti notkun tæknibúnaðar við dómgæslu. "Ef notast er við tækni, tekur það mannlega þáttinn úr leiknum. Ef sjónvarpsstöðvarnar vilja virkilega blanda sér í dómgæsluna verða þær að vera með í kosningum til forseta," sagði Platini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×