Lífið

Selur ímyndaðan vin á eBay

Sum börn eiga sér ímyndaða vini.
Sum börn eiga sér ímyndaða vini. MYND/Getty Images

Maður á Bretlandi hefur auglýst ímyndaðan vin sinn til sölu á uppboðsvefnum eBay. Nú þegar hafa boðist um tvö hundruð þúsund íslenskar krónur í vininn. Í auglýsingunni segir: „Ímyndaði vinur minn Jon Malipieman er að verða of gamall fyrir mig. Ég er 27 ára og finnst ég hafa þroskast frá honum."

Þar segir einnig að Jon sé mjög vingjarnlegur. Þá fylgir með listi yfir það sem honum líkar og mislíkar, uppáhaldshlutir og sjálfsmynd.

Seljandinn kallar sig „thewildandcrazyoli". Hann hefur fengið meira en 20 spurningar frá mögulegum kaupendum.

Hér eru nokkrar þeirra:

Spurning: „Mig langar mjög mikið að bjóða, en ef ég ynni, hvernig myndi ég vita hvort hann kæmi til mín? Ég vona að þú skiljir, en ég vil bara ekki vera snuðaður."

Svar: „Ég skil. En ég mun ekki senda þér ekkert. Ég sendi þér Jon brotinn saman í umslagi. Þar verður líka bréf með því sem honum líkar og mislíkar.

Spurning: „Síðast þegar ég keypti ímyndaðan vin varð ég aldrei náinn honum. ... Hann talaði nánast aldrei við mig !!! Getur þú fullvissað mig um að Jon verði öðruvísi?"

Svar: „Jon segir: Já ég verð öðruvísi. Ég elska að eignast nýja vini og myndi tala við þig svo mikið að þú yrðir leiður á mér!"

Spurning: „Get ég skilað honum ef okkur semur ekki?"

Svar: „Því miður eru engar endurgreiðslur. En ég get sent þér annan vin ef hann veldur þér vonbrigðum."

Spurning: „Ég er mjög músíkalskur en á enga vini ... spilar hann á loftgítar?"

Svar: „Já, hann er fagmaður á gítar og myndi elska að vera vinur þinn."

Spurning: „Er hann einstæður?"

Svar: „Já hann er einstæður í augnablikinu. Hann var dálítill kvennabósi, en er nú að leitast eftir alvöru sambandi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.