Pete Doherty var handtekinn í Kensington í London á laugardagskvöldið grunaður um að vera með fíkniefni. Lögregla stöðvaði hann á bíl sínum og færði til yfirheyrslu á lögreglustöð. Honum var síðan sleppt með tryggingu, en þarf að mæta aftur á stöðina í júní.
Doherty, sem er 28 ára og söngvari hljómsveitarinnar Babyshambles, hefur ítrekað komið fyrir rétt vegna fíkniefnamála undanfarna sex mánuði. Honum hafði verið skipað að fara í meðferð og dómari í máli hans lét þau orð falla í apríl, að hann hefði verið afar samvinnuþýður í að vinna bug á fíkn sinni í hörð eiturlyf. "Þeir sem standa mér næst hafa sagt stopp. Þau segja að ég þurfi að velja milli þeirra eða eiturlyfjanna," var haft eftir honum þá.
