Erlent

Kanadískt ungmenni ákært fyrir hryðjuverk

Omst Khadr.
Omst Khadr. MYND/AP

Bandaríkjaher hefur ákært tvítugan Kanadamann, Omar Khadr, fyrir meðal annars morð og hryðjuverkastarfsemi og verður hann dreginn fyrir sérstakan stríðsglæpadómstól sem Bandaríkjastjórn kom á í Guantánamo-búðunum við Kúbu í fyrra.

Khadr var gripinn eftir skotbardaga í Afganistan fyrir fimm árum þegar hann var aðeins fimmtán ára og sendur í Guantánamo-búðirnar skömmu eftir sextán ára afmæli sitt. Telja bandarísk yfirvöld hann tengjast al-Qaida hryðjuverkasamtökunum og hafa ákært hann fyrir að hafa drepið bandarískan hermann með því að kasta handsprengju í átt að honum í átökunum 2002. Verði Khadr sakfelldur getur hann átt yfir höfði sér lífstíðardóm.

Khadr er annar maðurinn sem ákærður er fyrir stríðsglæpadómstólnum í Guantanamo-búðunum en í síðasta mánuði lýsti Ástralinn David Hicks sig saklausan af því að stuðla að hryðjuverkum. Hann var hins vegar sakfelldur og afplánar níu mánaða fangelsisdóm í Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×