Innlent

Sektaður fyrir að valda hættu og hneykslan

17 ára drengur frá Mosfellsbæ var í dag dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands til að greiða 30 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs fyrir brot á áfengis- og umferðarlögum. Hann var ákærður fyrir að valda „hættu og hneykslan á almannafæri”, eins og segir í ákæru, með því að sitja uppi í afturrúðu bifreiðar sem ók eftir Austurvegi á Selfossi í desember 2006. Að auki var hann ákærður fyrir að neita að gefa lögreglu upp nafn sitt og kennitölu.

 

Málsatvik voru á þá leið að lögregla hafði umrædda nótt stöðvað bifreiðina eftir að tilkynnt hafði verið um óvarlegt aksturslag. Ökumaður hafði lofað að bæta ráð sitt en skömmu síðar sá lögreglan hvar bílnum var ekið eftir Austurvegi og sat ákærði þá uppi í afturrúðu bílsins. Í framburði lögreglumanns fyrir dómi kom fram að drengurinn hefði verið með búkinn úti og fæturna inni í bílnum og að hann hefði veifað og hrópað í átt að lögreglubílnum. Þegar lögregla hafði fært drenginn inn í lögreglubíl neitaði hann að segja til nafns og gerði tilraun til að yfirgefa lögreglubílinn. Við leit á honum kom í ljós að hann var undir lögaldri og var honum tilkynnt að hann væri handtekinn og að haft yrði samband við foreldra hans.

 

Þrátt fyrir að ökumaður og farþegar bifreiðarinnar hafi neitað því að drengurinn hafi setið uppi í glugga bifreiðarinna þótti dómara fullsannað að svo hafi verið. Ákærði neitaði því einnig að hafa ekki viljað segja til nafns en dómara þótti það fullsannað. Drengurinn var því dæmdur til að greiða 30 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella fangelsi í fjóra daga. Hann var einnig dæmdur til að greiða málsvarnarlaun til verjanda síns, tæpar 200 þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×