Innlent

Geðdeild yfirfull og sjúkrarými alltof fá

Yfirlæknir á geðdeild Landspítalans segir aðstæður þunglyndissjúklings í sjálfsvígshugleiðingum sem nýlegar var vistaður inn á salerni deildarinnar fyrir neðan allar hellur og algjörlega ómannsæmandi. Deildin hafi verið yfirfull og ekki hægt að vísa manninum annað því hann hafi verið talinn í bráðri lífshættu.



Þunglyndur piltur á þrítugsaldri í sjálfsvígshættu var lagður inn á geðdeild Landspítalans í vikunni. Eins og fram kom í fréttum okkar í gær var hann vistaður inn á salerni þar sem plastfilmur voru fyrir gluggum svo ekki sást út og veggfóðrið í herberginu rifið. Einnig voru hreinsiefni á vaskinum sem maðurinn hefði hæglega getað misnotað í sjálfsvígshugleiðingum. 

Tómas Zoega yfirlæknir á geðdeild Landspítalans segir fullkomlega óviðunandi að vista menn við svona aðstæður en oft sé ekki um annað að ræða.  Hann segir slæmt að hreinsiefni hafi verið aðgengileg á vaskinum en þar sé um handvömm starfsmanna að ræða. 

Tómas segir sjúkrarými á geðdeild alltof fá þar sem deildin hafi einungis rúm fyrir fimmtán til sextán sjúklinga. Hún sé alltaf full og þar séu 18-19 sjúklingar hverju sinni.  Tómas segir þetta afleiðingu af niðurskurði spítalans undanfarin ár.  Niðurskurðurinn hafi verið of mikill og menn séu fyrst að sjá það núna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×