Innlent

Jónína Bjartmarz nær ekki inn

Framsóknarflokkurinn nær ekki inn manni í Reykjavíkurkjördæmi suður samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Ríkissjónvarpið og Morgunblaðið. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir bæta við sig þingmanni.

Samkvæmt könnuninni fengi Sjálfstæðisflokkurinn 42,5 prósent atkvæði í kjördæminu og fimm þingmenn. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn fjóra þingmenn í kjördæminu.

Samfylkingin fengi 24,9 prósent atkvæði og tvo þingmenn en fékk þrjá í síðustu kosningum. Vinstri grænir bæta við sig þingmanni og fá nú tvo. Alls sögðust 18,8 prósent þeirra sem tóku afstöðu muna kjósa Vinstri græna.

Framsóknarflokkurinn fengi 4,5 prósent atkvæði ef gengið yrði til kosninga nú og engan mann kjörinn. Í síðustu kosningum fékk framsókn einn mann kjörinn. Samkvæmt þessu næði Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, ekki inn á þing en hún skipar fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í kjördæminu.

Frjálslyndir mældust samkvæmt könnuninni með 3,9 prósent atkvæða og Íslandshreyfingin með 5,4 prósent. Hvorugur flokkurinn næði inn manni samkvæmt þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×