Innlent

Sjö brenndu sig á heitu vatni í miðbænum

MYND/Hörður Sveinsson

Sjö manns voru fluttir á slysadeild Landspítalans eftir að þeir höfðu brennst á fæti þegar sjóðandi heitt vatn fossaði niður Vitastíg í gærkvöld. Lögregla fékk tilkynningu um málið um klukkan 21.40 og lokaði hún Laugavegi og Hverfisgötu til móts við Vitastíg.

Fljótlega var skrúfað fyrir vatnið en kalla þurfti á dælubíl slökkviliðsins vegna þess að heita vatnið hafði farið ofan í kjallara húss við götuna. Svo virðist sem hitaveiturör í húsi ofarlega á Vitastíg hafi gefið sig með fyrrgreindum afleiðingum en starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur unnu að viðgerð á því fram undir miðnætti.

Sem fyrr segir brenndu sjö manns sig á heita vatninu, flestir í kringum ökkla, og voru þrír þeirra lagðir inn vegna sára sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×