Innlent

Boðið á leiklestur hjá LA fyrir eina krónu

MYND/365

Leikfélag Akureyrar fagnar á morgun 90 ára afmæli sínu og af því tilefni munu leikarar leiklesa Æfintýri á gönguför í Samkomuhúsinu í kvöld klukkan 20. Fyrr í vetur var húsið hundrað ára en Æfintýri á gönguför var einmitt fyrsta verkið sem flutt var þá. Fram kemur í tilkynningu frá LA að miðaverð á leiklesturinn í kvöld verði það sama og árið 1907, ein króna.

Þótt Leikfélag Akureyrar hafi verið formlega stofnað árið 1917 spannar forsagan áratugi þar á undan. Frumherjinn í leiklist á Akureyri var Bernhard Steincke verslunarmaður sem stóð fyrir leiklistarstarfsemi í bænum allt frá árinu 1860. Sýningar hófust svo í Samkomuhúsinu árið 1907 og tíu árum síðar var Leikfélagið formlega stofnað.

Félagið var lengst af áhugaleikfélag en árið 1973 urðu vatnaskil þegar fyrstu leikararnir voru fastráðnir og það breyttist í atvinnuleikhús. Síðasta leikár var það aðsóknarmesta í sögu leikhússins og ljóst er að þetta leikár fylgir fast á hæla þess síðasta, segja aðstandendur leikhússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×