Innlent

Reisugildi vegna nýs Háskólatorgs HÍ

MYND/Pjetur

Starfsmenn og stúdentar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands fagna í reisugildi í dag byggingu nýs Háskólatorgs við Háskóla Íslands. Um er að ræða tíu þúsund fermetra þjónustu- og kennslubyggingu á háskólalóðinni sem hafist var handa við fyrir réttu ári og verður vígð í lok þessa árs, á fullveldisdaginn 1. desember.

Háskólatorgin eru í raun tvö. Annað er milli leikfimihússins og aðalbyggingarinnar þar sem meðal annars verður að finna fyrirlestra- og fundarsali og bóksölu.

Hitt er á milli Árnagarðs, Lögbergs og Odda og þar verður meðal annars aðstaða fyrir grunn- og framhaldsnemendur ásamt skrifstofu fyrir kennara og starfsmenn. Til stóð að reisa þar tveggja hæða hús en ákveðið var að bæta þriðju hæðinni við. Hún verður úr gleri og stáli og afhent Háskólanum snemma á næsta ári.

Heildarkostnaður framkvæmdarinnar nemur rúmum 1,8 milljörðum króna en viðbótarkostnaður vegna þriðju hæðarinnar, sem verður um þúsund fermetrar er um 250 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×