Innlent

Landsmönnum fjölgar sem aldrei fyrr

Íbúum á Íslandi fjölgaði um 7.781 einstakling á síðasta ári.
Íbúum á Íslandi fjölgaði um 7.781 einstakling á síðasta ári. MYND/ Gunnar V.

Fólksfjölgun á Íslandi í fyrra var með því mesta sem mælst hefur á síðustu fimmtíu árum. Þetta kemur fram samantekt Hagstofunnar um fólksfjöldaþróun og erlenda ríkisborgara frá 1996 til 2006. Fjölgunin er öðru fremur rakin til mikils aðstreymis fólks frá útlöndum.

Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að á síðasta ári fjölgaði íbúum á Íslandi um 2,6 prósent sem meira en gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum. Undanfarinn áratug hefur fólksfjölgun í álfunni í heild verið um 0,2 prósent og í einungis örfáum löndum fjölgar íbúum um meira en eitt prósent á ári.

Undir lok síðasta árs voru landsmenn 307.672 en voru 299.891 við lok fyrra árs. Alls fjölgaði íbúum á landinu því um 7.781 einstakling.

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað hlutfallslega í öllum landshlutum. Mest á Austurlandi en þar eru nú rúmlega einn af hverjum fjórum íbúum með erlent ríkisfang. Frá árinu 1996 hefur landsmönnum með erlent ríkisfang fjölgað úr tæpum 2 prósentum í 6 prósent um síðustu áramót.

Fram undir 1980 var fólksfjölgun hérlendis nær eingöngu rakin til mikillar náttúrulegrar fjöldunar. Undanfarna áratugi hefur hins vegar dregið úr frjósemi og um þessar mundir eignar konur hér á landi að meðaltali tvö börn um ævina. Fólksfjölgun síðasta áratug er því öðru fremur rakin til mikils aðstreymis fólks frá útlöndum en á síðasta ári var fjöldi aðfluttra umfram brottflutta í flutningum til landsins 5.255.

Þá kemur fram í samantekt Hagstofunnar að kynjahlutfall er jafnast í þéttbýli en ójafnast í dreifbýli. Þannig búa um 992 karlar á móti þúsund konum á höfuðborgarsvæðinu á Austurlandi var kynjahlutfallið 1.592 karlar á móti þúsund konum.

Sjá samantekt Hagstofunnar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×