Innlent

Garðar Cortes syngur fyrir West Ham gegn Chelsea

Eggert Magnússon hefur fengið Garðar Thór Cortes óperusöngvara til að mæta á Upton Park og hefja upp raust sína annað kvöld. Garðar ætlar að syngja kjark í liðsmenn West Ham fyrir mikilvægan leik þeirra í fallbaráttunni gegn Chelsea. Þetta kemur fram í breska blaðinu Guardian í dag.

Garðar syngur einkennislag West Ham liðsins, "I'm forever blowing bubbles" og "Nessun Dorma" sem er aría úr óperu Puccinis, Turandot. Luciano Pavarotti söng þessa sömu aríu inn í enska fótboltahefð sem titillag útsendinga BBC frá heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu á Ítalíu 1990.

Þetta er í fyrsta skipti, sem Garðar hitar upp fyrir fótboltaleik. Umboðsmaður hans, Brian Lane, segir í samtali við Reuters fréttastofuna, að Garðar sé sjálfur búsettur í Englandi og mikill áhugamaður um fótbolta. West Ham komist næst því að vera íslenskt lið.

Garðar segist ætla að blása liðinu íslenskan báráttuanda í brjóst og syngja liðið til sigurs. West Ham slær örugglega ekki hendinni á móti þessari aðstoð. Liðið er í næst neðsta sæti úrvalsdeildarinnar og þarf að fá amk fimm stig úr síðustu fimm leikjum sínum í deildinni til að komast hjá falli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×