Innlent

Allir flokkar fallast á flugvöll á Hólmsheiði

Allir flokkar í borgarstjórn lýstu því yfir á borgarstjórnarfundi í dag að þeir gætu fallist á flugvöll á Hólmsheiði en rætt var um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni út frá skýrslu sem unnin hefur verið um málið.

Fram kemur í tilkynningu frá borgarfulltrúum Samfylkingarinnar að Hólmsheiðarkostinn þurfi aðeins að skoða betur út frá veðurfari næstu 2-4 ár og að á fundinum í dag hafi verið boðað að skýrslan yrði tekin til frekari umræðu í borgarstjórn þegar hún lægi fyrir.

Telur Samfylkingin að skýrslan geti lagt grunn að niðurstöðu sem breið sátt gæti náðst um og vill flokkurinn að stofnað verði félag ríkis og borgar um flutning flugvallarins og þróun Vatnsmýrarinnar.

Ýmis sóknarfæri skapist með flutningi vallarins. Til dæmis megi á nýjum velli skapa aðstöðu fyrir lággjaldaflug á innanlandsleiðum og endurskipuleggja og efla sjúkraflutninga á landsbyggðinni og skapa aðstöðu fyrir staðsetningu sjúkraþyrlna á Akureyri.

Þá sé enn fremur hægt að kanna kosti þess að nýta einkaframkvæmd við byggingu nýs flugvallar og kanna möguleika á lækkun flugvallarskatta með bættum rekstri á nýjum stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×