Innlent

Þurfa að flytja tímabundið vegna aurflóðs

Gríðarlegt eignatjón varð á Sauðárkróki í morgun þegar vatnsstokkur fyrir ofan bæinn sprakk. Mikið mildi þykir að ekki fór fer þegar vatnselgurinn steyptist niður Nafirnar. Hreinsunarstarf tekur nokkurn tíma og því þurfa tvær fjölskyldur að flytjast búferlum á meðan.

Það var um klukkan níu í morgun sem vatnsstokkurinn gaf sig. Skömmu áður höfðu menn frá RARIK verið að grafa á svæðinu og skorið í háspennulínu með þeim afleiðingum að rafmagn fór af bænum. Við það gerðist eitthvað í stöðvarhúsi Gönguskarðsárvirkjunar þannig að högg kom á túrbínuna í húsinu. Við það slitnuðu gjarðir sem halda stokknum saman og hann sprakk.

Það tók starfsmenn um 20 mínútur að gera við stokkinn og á meðan steyptist vatnselgurinn niður Nafirnar, gróf með sér aur og drullu og lenti á húsum í norðurenda bæjarins. Mikil mildi þykir að ekki fór verr.

Frosti Frostason rafvirki var með þeim fyrstu á vettvang. Hann segist hafa grunað hvað hafi gerst þegar hann hafi séð vatnið fossa fram með stokknum. Hann hafi farið í að hjálpa fólk sem komið hafi verið út á tröppur á Villa Nova. Hann hafi keyrt upp að húsinu og borið konu og barn út í bílinn.

Tjónið hleypur á tugum milljóna en Tryggvi Þór Jónsson, forstjóri RARIK, segist þakka fyrir að enginn hafi meiðst í óhappinu. Það sé mikið verk að þrífa upp aurinn.

Að sögn Björns Steins Sveinssonar hjá lögreglunni á Sauðárkróki þá flokkast tjónið líklega ekki undir viðlagasjóð heldur mun rafmagnsveitan trúlega vera skaðabótaskyld. Meðal þeirra húsa sem urðu verst úti er eitt frægasta hús bæjarins, Villa Nova.

Hreinsunarstarf tekur nokkurn tíma og því þurfa tvær fjölskyldur að flytjast búferlum á meðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×