Innlent

Boðið að falla frá ákæru fyrir vitnisburð gegn Jóni Ásgeiri

Tryggvi Jónsson er hér ásamt lögmanni sínum, Jakob Möller.
Tryggvi Jónsson er hér ásamt lögmanni sínum, Jakob Möller. MYND/GVA

Yfirheyrslum yfir Tryggva Jónssyni, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, lauk laust fyrir klukkan eitt í Héraðsdómi Reykjavíkur. Eins og greint var frá fyrr í dag var Tryggvi meðal annars spurður út í meintan fjárdrátt frá Baugi sem tengist skemmtibátnum Thee Viking og getið er í 18. ákærulið endurákærunnar.

Fyrir dómi sagði Tryggvi að lögreglumenn sem rannsakað hefðu Baugsmálið hefðu komið þeim skilaboðum til lögmanns hans að staða hans myndi breytast ef hann segði satt og rétt frá og vitnaði gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, í málinu. Hann fengi því stöðu vitnis í stað sakbornings.

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, sagði að sér hefði heyrst að Tryggvi væri að draga þessar ályktanir en ekki að honum hefði verið lofað slíku eða það gefið í skyn. Staða manna væri hins vegar alltaf betri ef þeir segðu satt og rétt frá.

Á morgun hefjast yfirheyrslur yfir Jóni Gerald Sullenberger, þriðja manninum sem ákærður er í málinu, og er reiknað með að þeim verði lokið fyrir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×