Innlent

Heilsuverndarstöðin verður hótel

MYND/E.Ól

Nýir eigendur Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg hafa uppi hugmyndir um að breyta henni í hótel en þeir keyptu húsið af Mark-Húsum fyrir um mánuði. Mark-Hús keyptu húsið hins vegar af borginni og ríkinu í hitteðfyrra og var starfsemin sem þar var flutt í húsnæði í Mjódd og á Landspítalann við hávær mótmæli starfsmanna.

Mark-Hús fengu Heilsuverndarstöðina afhenta í ágúst en leigðu hana heilbrigðisyfirvöldum fram á haust á meðan unnið var að flutningi starfseminnar sem þar var. Félagið hafði þó um nokkurt skeið auglýst húsið til sölu.

Að sögn Guðmundar Jónssonar hjá Fasteignamarkaðinum, sem hafði milligöngu um sölu Heilsuverndarstöðvarinnar nú eftir áramót, fengu Mark-Hús nokkur tilboð í húsið en hann segist ekki mega greina frá því hversu hátt verð var greitt fyrir húsið nú. Hins vegar má geta þess að Mark-Hús keyptu húsið af yfirvöldum fyrir 980 milljónir króna.

Guðmundur segir kaupandann einnig vera trúnaðarmál. Hann segir aðspurður ljóst að ef menn hyggist reka þarna hótel verði að breyta ýmsu innanhúss en Heilsuverndarstöðin er friðuð að hluta til, aðallega ytra borð hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×