Innlent

Hringvegurinn klárast ekki

Halldór Blöndal, fyrrverandi samgönguráðherra, gagnrýnir Sturlu Böðvarsson, eftirmann sinn á ráðherrastól, fyrir að klára ekki að malbika hringveginn í samgönguáætlun næstu tólf ára.

Þingmenn héldu áfram að ræða samgönguáætlun á Alþingi í dag. Halldór Blöndal segir að þegar hann sem samgönguráðherra kynnti vegaáætlun fyrir átta árum hafi verið miðað við að klára hringveginn á 13 árum. Hann segir að eftirmaður sinn hafi breytt um stefnu. Samgönguáætlun geri ekki ráð fyrir því að ljúka hringveginum sem Halldór segir að sé ekki rétt áhersla.

Halldór hefur einnig efasemdir um þá aðferð sem rætt er um til að fjármagna tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar út frá Reykjavík. Nauðsynlegt sé að tvöfalda vegina en svokölluð skuggagjöld sé of dýr aðferð fyrir ríkið til að taka lán. Ríkið þurfi ekki á neinum millilið að halda til að komast inn á lánsfjármarkað. Skuggagjöld hafi upphaflega verið tekin upp til þess að fara á bak við ríkissjóð til að ná fjármagni framhjá vilja löggjafans. Eins og lögum sé nú háttað um fjársýslu ríkisins sé það ekki hægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×