Innlent

Steggjunin fór úr böndunum

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann á þrítugaldri í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa slegið konu í andlitið með glerflösku þannig að hún hlut skurð á enni. Janframt var hann dæmdur til að greiða henni hundrað þúsund krónur í miskabætur. Maðurinn var sakfelldur meðal annars með vísan til Mannhelgisbálks Jónsbókar frá árinu 1281.

Fram kemur í dómnum að lögregla hafi verið kölluð að veitingastaðnum í júní árið 2005 vegna manns sem gengið hefði berserksgang á veitingastaðnum. Þegar lögregla hugðist hafa afskipti af manninum, sem ákærður var, varð hann æstur og réðst að einum lögreglumannanna. Hann var því handtekinn en linnti ekki látum fyrr en komið var á lögreglustöð. Fram kom í skýrslutöku af manninum daginn eftir að hann myndi ekki eftir atburðunum sökum ölvunar en hann bar því við að vinir hans hefðu verið að steggja hann yfir daginn.

Í framburði vitna kom fram að maðurinn hefði byrjað að hrækja á gólf veitingastaðarins og við það hefði annar gestur á staðnum gert athugasemdir. Þá hefði ákærði tekið að grýta hann með bjórflöskum en starfsstúlka á veitingastaðnum varð fyrir einni þeirra.

Ákærði neitaði hins vegar sök en viðurkenndi að hafa hent flösku í vegg á veitingastaðnum. Dómnum þótti framburður vitna hins vegar staðfesta hið gagnstæða og því yrði dregin sú ályktun að starfsstúlkan hefði verið stödd á milli ákærða og mannsins sem kvartaði undan háttalagi hans. Ekki liggi þó fyrir að flaskan hafi brotnað á stúlkunni.

„Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í dómasafni 1926, bls. 392 og með vísan til Mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281, í kap. 13 um váðaverk, sem enn er í gildi, verður ákærði sakfelldur fyrir líkamsárás," segir í dómi héraðsdóms.

Enn fremur kemur fram í dómnum að maðurinn hafi ekki áður komist í kast við lögin en að háttsemi hans hafi verið vítaverð. Hins vegar hafi afleiðingar verknaðar hans ekki verið mjög alvarlegar. Þykir því eins mánaðar fangelsi sem er skilorðsbundið til tveggja ára hæfileg refsing

Stúlkan sem varð fyrir flöskunni fór fram á 630 þúsund krónur í miskabætur en dómnum þótti sú krafa ekki studd með neinum gögnum. Hins vegar var ákveðið á grundvelli skaðabótalaga og fyrri dóma að ákvarða henni hundrað þúsund krónur í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×