Innlent

Didda syngur til að frelsa barnsföður úr fangelsi

Finnsk-íslenska hljómsveitin Mina Rakastan Sinua, með skáldkonuna Diddu í fararbroddi, heldur tónleika í kvöld til að safna peningum til að leysa barnsföður Diddu úr fangelsi á Jamaika.

Barnsfaðir yngri sonar skáldkonunnar Diddu er Jamaikamaður og hefur um skeið setið í fangelsi fyrir tiltölulega saklaus mál sem hann var sektaður fyrir en hann á ekki fyrir sektinni og situr því inni. Það er Krummi, sjö ára sonur hans og Diddu sem þrýsti á móður sina að gera eitthvað í málinu og úr urðu tónleikarnir sem hefjast á mínútunni klukkan hálf tíu í kvöld.

Didda segir að Krummi hafi viljað að þau réðust inn í Jamaika, rústuðu fangelsinu og björguðu manninum. "En mig langar að sýna að það er hægt að hjálpa fólki á svolítið friðsamari hátt segir hún og hlær.

Það þarf að safna 180 þúsund krónum til að eiga fyrir sektinni. En það er enginn annar en Elvis Presley sem er á dagskránni á tónleikunum í kvöld.

"Mina rakastan sinua og Elvis ætlar að heiðra hinn frábæra mann Elvis Presley, með því að taka lög sem hann tók og bæði lögin sem hann samdi sjálfur. Þetta er smá hylling fyrir hann því hann var svo duglegur við að skemmta fólki og fór einmitt ekki í manngreinaálit eða lék lífsstílslöggu," segir Didda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×