Innlent

Sextán ára í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps

Sextán ára piltur var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps en hann stakk mann í bakið með hnífi. Pilturinn komst í kynni við manninn á netinu og hittust þeir þrisvar.

Í byrjun september á síðasta ári fóru þeir saman í bíltúr og þegar þeir komu á bílastæði við Skautahöllina í Reykjavík tók hann upp hníf og stakk manninn í bakið. Pilturinn bar því við fyrir dómi að hann hefði viljað prófa að drepa mann.

Í dómnum segir að greindarskortur hafi orðið til þess að pilturinn gerði sér ekki grein fyrir alvarleika málsins en það var mat geðlækna að hann teldist sakhæfur. Töldu þeir þó að fangelsisvist myndi ekki gera honum gagn.

Fram kemur í dómnum að Fangelsismálastofnun ríkisins og Barnaverndarstofa hafi gert með sér samning um vistun fanga yngri en 18 ára á meðferðarheimilum og að því virtu telur dómurinn að ákvarða beri refsingu fyrir piltinn. Hins vegar séu ekki fyrir því skilyrði að dómurinn ákveði hvar drengurinn afpláni refsingu sína.

Auk fangelsisrefsingarinnar var drengurinn jafnframt dæmdur til að greiða brotaþolanum 600 þúsund krónur í miskabætur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×