Innlent

Krefst skýringa á skipun í stjórn Norræna blaðamannaskólans

Arna Schram, formaður Blaðamannafélagsins, hefur sent menntamálaáðuneytinu harðort bréf þar sem krafist er skýringa á því að ráðuneytið hafi hunsað tilnefningar félagsins um fulltrúa í stjórn Norræna blaðamannaskólans, NJC, í Árósum.

Á vef Blaðamannafélagsins er bréf Örnu birt en þar kemur fram að stjórn Blaðamannafélagsins lýsi undrun sinni á því að menntamálaráðuneytið hafi skipað aðra fulltrúa í sérfræðinganefnd norræna blaðamannaskólans NJC í Árósum en stjórn BÍ tilnefndi, en sérfræðinganefndin tók við af stjórn skólans eftir umdeildar skipulagsbreytingar á stofnunum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Segir Arna í bréfinu að ranglega sé farið með það á heimasíðu NJC að fulltrúar sérfræðinganefndarinnar séu skipaðir samkvæmt tillögu fjölmiðlasamtaka viðkomandi lands. Í fyrsta sinn í 50 ára sögu skólans sé tilnefning BÍ í stjórn hans hunsuð.

Arna sagði í samtali við fréttastofu Vísis að samkvæmt beiðni ráðuneytisins hefði félagið tilnefnt tvo til starfans, aðalmann og varamann. Birgir Guðmundsson, lektor í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri, hefði verið tilnefndur sem aðalmaður en Svanborg Sigmarsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, sem varamaður. Þessar tilnefningar hafi Elfa Ýr Gylfadóttir, deildarstjóri fjölmiðladeildar menntamálaráðuneytisins, staðfest við hana fyrir jól.

Hins vegar hafi hún nýlega litið á heimasíðu Norræna blaðamannaskólans og komist að því að Ólafur Stephenssen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, og umrædd Elfa Ýr hefðu verið tilnefnd sem aðal- og varamaður fyrir hönd Íslands í sérfræðinganefnd skólans. Hún spyrji sig því hvort þetta þýði að ráðuneytið vilji ekki starfa með Blaðamannafélagi Íslands innan NJC, en það væri þá einsdæmi á Norðurlöndum. Arna segist ekkert hafa á móti þeim sem tilnefndir hafi verið en hún sé mjög ósátt við þessi vinnubrögð ráðuneytisins.

Hún hafi sent ráðuneytinu umrætt bréf í síðustu viku og óskað eftir svörum sem fyrst en engar skýringar fengið enn á þessum ákvörðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×