Innlent

Flugumferðarstjórar taka afstöðu til tilboðs í dag

Flugumferðarstjórar, sem ekki hafa ráðið sig hjá Flugstoðum ohf., ætla á félagsfundi í dag að taka afstöðu til tilboðs fyrirtækisins frá því í gær, ef það stendur þá enn. Fundi var slitið í gær þrátt fyrir samkomulag, vegna þess að Flugstoðir vildu ekki að það yrði borið undir félagsfund flugumferðarstjóra.

Fulltrúar flugumferðarstjóra gengu af fundi með fulltrúum Flugstoða á níunda tímanum í gærkvöldi án niðurstöðu þótt efnislegt samkomulag hefði náðst um lífeyrismál, sem eru helsti ásteytingarsteinninn, en formsatriði kom í veg fyrir að skrifað væri undir samkomulagið.

Flugstoðir kröfðust þess að undirskrift stjórnarmanna í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra gilti skilyrðislaust án þess að samkomulagið yrði fyrst borið undir fund flugumferðarstjóra með þeim rökum að ekki sé um kjaradeilu að ræða heldur aðilaskipti.

Þetta gátu fulltrúar flugumferðarstjóra ekki fellt sig við og gengu af fundinum. Loftur Jóhannsson formaður félags flugumferðarstjóra sagði í morgun að viðhorf fundarins til tilboðsins yrði síðan kynnt Flugstoðum ef tilboðið stæði enn. Engin fundur hefur þó verið ákveðinn með deilendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×