Erlent

Birti skjöl um harðræði gagnvart föngum í Guantanamo

MYND/Reuters

Bandaríska alríkislögreglan birti í dag skjöl þar sem vel á þriðja tug starfsmanna hennar greina frá harðneskjulegum yfirheyrslum og harðræði gangvart föngum í búðunum á Guantanamo-flóa sem þeir hafi orðið vitni að.

Meðal þess sem getið er í skjölunum er að fúlskeggjaður fangi hafi verið vafinn með límbandi í framan og að annar hafi verið látinn dúsa í brennheitu herbergi og hafi eftir það getað rifið af sér hárið.

Þá er þess getið í skjölunum að starfsmenn fangelsisins hafi haldið fanga í myrkuðu herbergi í sólarhring við yfirheyrslur og kemur fram að Donald Rumsfeld, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafi samþykkt þessa aðferð.

Alríkislögreglunni var gert að birta skjölin eftir kröfu bandarískra mannréttindasamtaka á grundvelli upplýsingalaga en FBI segir skjölin sýna að starfsmenn stofnunarinnar hafi ekki komið nálgægt pyntingunum þrátt fyrir að fjölmargir starfsmenn hennar hafi starfað í búðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×