Innlent

Niðurgreiðslur vegna dagforeldra hækka

Niðurgreiðsla Reykjavíkurborgar vegna barna hjá dagforeldrum hækkar um rúmar tíu þúsund krónur nú um áramótin. Á sama tíma eru málefni grunnskóla og leikskóla aðskilin hjá borginni.

Framlag borgarinnar til dagforeldra hækkaði um 32 prósent frá og með áramótum sem þýðir að barn hjóna sem er í átta tíma vistun hjá dagforeldri fær niðurgreiðslu upp á 31.880 krónur á mánuði en fékk áður 21.600 krónur.

Í tilkynningu frá nýju leikskólasviði Reykjavíkurborgar segir að nýleg könnun Félagsvísindastofnunar sýni að 90% þeirra foreldra sem eiga börn hjá dagforeldrum séu ánægðir með þjónustuna. Lítill stuðningur hafi hins vegar verið við þetta fyrirkomulag og því hafi dagforeldrum fækkað um 37% á síðustu sex árum sem valdið hefur foreldrum verulegum vandræðum. Hækkun niðurgreiðslunnar mun kosta um 85 milljónir á ári.

Veruleg andstaða var við það í haust að skipta menntaráði borgarinnar upp í tvö ráð og töldu Félag leikskólakennara og Kennarafélag Reykjavíkur það stórt skref aftur á bak. Nú hefur það skref verið stigið til fulls því í dag tók til starfa nýtt Leikskólasvið Reykjavíkurborgar og er þá aðskilið frá málefnum grunnskólans sem verða á Menntasviði.

Að sögn sviðsstjóra nýja leikskólasviðsins, Ragnhildar Erlu Bjarnadóttur, breytir hin nýja skipting engu fyrir foreldra, sem áfram munu sækja sínar upplýsingar um úthlutun leikskólaplássa í þjónustumiðstöðvarnar í hverfum borgarinnar.

Í Garðabæ hækkar framlag bæjarins til dagforeldra um sex þúsund krónur og fer upp í röskar 46 þúsund krónur fyrir átta tíma vistun.

Í Hafnarfirði hafa engar breytingar verið ákveðnar á niðurgreiðslu til dagforeldra en hún er núna tæpar 30 þúsund krónur á mánuði fyrir 8 tíma vistun.

Í Kópavogi verða ekki breytingar á niðurgreiðslunni en þar er hún 30 þúsund krónur fyrir 8 tímana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×