Innlent

Bjartsýnin hættulega mikil fyrir leikinn gegn Íslendingum

Dönsku leikmennirnir fagna sigri gegn Rússum í milliriðli heimsmeistarakeppninnar.
Dönsku leikmennirnir fagna sigri gegn Rússum í milliriðli heimsmeistarakeppninnar. MYND/AP

Lars Christiansen, einn reyndasti leikmaður danska landsliðsins í handknattleik, varar liðsfélaga sína og dönsku þjóðina við of mikilli bjartsýni fyrir leikinn við Ísland. Undir það tekur greinarhöfundur í Politiken sem segir bjartsýnina hættulega mikla fyrir leikinn.

Í greininni segir enn fremur að danska landsliðið standi frammi fyrir bestu möguleikum sínum á að vinna til verðlauna á heimsmeistaramóti í tuga ára en hættan sé til staðar. Ekki af því að íslenska liðið sé ósigrandi og hafi á að skipa stjörnu prýddu liði heldur vegna þess að Ísland sé Ísland. Lítil eyja í Norður-Atlantshafi þar sem færri búi en í Árósum samanlagt og því vanmeti menn sjálfkrafa íslenska liðið.

Ísland hafi vissulega verið óskamótherji margra dönsku leikmannanna en haft er eftir Lars Christiansen að Danir hafi verið í þessum aðstæðum áður og fallið á prófinu. „Nú þurfuim við að sýna styrk og útsjónarsemi. Handbolti er hluti af þjóðarstolti Íslendinga og íþróttin er vinsæl þar í landi og ég vona að ég og liðsfélagar mínir fyllumst sama stolti í kvöld. Við getum hreinlega ekki látið þennan möguleika fram hjá okkur fara og því verðum við reyndari spilararnir, sem höfum upplifað fleiri sorgarstundir á HM en góðu hófi gegnir, að ræða við þá reynsluminni sem gera sér ekki grein fyrir þessu," segir Christiansen.

Greinarhöfundur segist ekki í vafa - og telur danska liði heldur ekki í vafa - um að danska landsliðið sé sterkara sem lið en það íslenska, alla vega þegar liðin ná sínum besta leik. En góðir sigrar á stórþjóðum eins og Rússum og Spánverjum hafi aukið sjálfstraust Dana á þann hátt að þeir geti vanmetið Ísland eilítið og það eitt geti endað með ósköpum.

RÚV sýnir alla leiki í 8-liða úrslitumRíkissjónvarpið sýnir alla fjóra leikina í fjórðungsúrslitum HM í handbolta. Tvo þeirra í beinni útsendingu, Þýskaland-Spánn og Ísland-Danmörk. Í dagskrárlok í kvöld verða síðari hálfleikir hinna leikjanna, Frakkland-Króatía og Pólland-Rússland, sýndir frá kl. 23.30.

Allir leikirnir fjórir verða svo sýndir í heild sinni í upphafi dagskrár á morgun, frá kl. 11.05.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×