Innlent

SMS-helgi í uppsiglingu

Svonefnd SMS-helgi fer nú í hönd, en þá eiga unglingar það til að mæla sér mót á laun með SMS-skilaboðum og slá upp teiti á ólíklegustu stöðum.

Þar er gjarnan slegið upp tjaldbúðum á svæðum sem ekki er gert ráð fyrir slíku og því engin hreinlætisaðstaða eða eftirlit. Oftar en ekki hefur ölvun farið úr böndunum og endað með slagsmálum, slysum og kynferðisbrotum.

Þetta er líka fyrsta helgi sumarsins sem unglingar hafa einhverja fjármuni á milli handanna því í dag er fyrsti útborgunardagur sumarvinnunnar. Lögreglulmenn á landsbyggðinni hvetja foreldra til að bera fulla ábyrgð á börnum sínum og gæta þeirra.

Búist er við óvenju mikilli umferð enda veðurspá góð og verður lögregla með mikið umferðareftirlit. Þá verða sjúkraflutningamenn viðbúnir aukaálagi og Landhelgisgæslan mun fljúga með lögreglumenn til eftirlits um helgina. Auk þess verður þyrlusvelitin í viðbragðsstöðu vegna sjúkraflutninga.

Hálendisvegir eru allir orðnir færir nema Eyjafjarðarbraut sem jafnan verður síðast fær allra fjallvega. Vegagerðin bendir hálendisförum á að að kanna straum, dýpi og botngerð áa, áður en þeir aka yfir þær og vatn vex í jökulám síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×