Lífið

Bubbi leigir í Langagerði

Breki Logason skrifar
Bubbi Morthens var að gefa út veiðibók.
Bubbi Morthens var að gefa út veiðibók.

„Ég leigi einbýlishús í Langagerði á meðan ég bíð þess að geta flutt inn," segir Bubbi Morthens sem er að byggja sér hús upp við Meðalfellsvatn.

„Ég gæti sennilega flutt inn eftir áramót ef ég vildi en það er skemmtilegra að flytja inn í birtu og vori," segir Bubbi sem var nokkuð rámur og slappur þegar Vísir náði af honum tali enda með bullandi flensu.

„Það er nú töluvert síðan húsið varð fokhelt og það er verið að vinna í innviðunum núna. Þetta er orðið mjög flott og ég er mjög ánægður með þetta. Ég er alltaf að læra nýja hluti í þessu. Meðal annars það að ein vika þegar maður er að byggja hús er ekki það sama og ein vika og hjá eðlilegu fólki," segir Bubbi sem hefur verið með iðnaðarmenn á sínum snærum í framkvæmdunum. „Það má segja að þeir eigi sína spretti," segir Bubbi í léttum tón.

En þó að Bubbi sé með flensu þá hefur það ekki áhrif á nýja þáttinn hans sem er væntanlegur. „Nei við erum búnir að taka upp prufurnar og það er bara verið að vinna þáttinn sem fer í loftið eftir áramót."

Bubbi situr þó ekki og bíður eftir vorinu því út er komin bók eftir kónginn sem er jólagjöf veiðimannsins og allra hinna sem hafa ekki hundsvit á laxveiði. „Hún heitir að kasta flugu í straumvatn er að tala við guð og er gefin út af JPV. Þetta eru smásögur sem allar bindast saman að því leitinu að þær fjalla um laxveiði."

Bubbi segir sögurnar vera bæði af sjálfum sér og af öðrum. „Þetta eru sögur af fólki og löxum og eru allt frá því að vera fyndnar og yfir í það að vera há dramatískar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.