Lífið

Gefa tólf þúsund myndasögur í dag

Þórhallur Björgvinsson, starfsmaður Nexus, sem gefur tólf þúsund myndasögur í dag.Fréttablaðið/Vilhelm
Þórhallur Björgvinsson, starfsmaður Nexus, sem gefur tólf þúsund myndasögur í dag.Fréttablaðið/Vilhelm Fréttablaðið/Vilhelm

„Við ætlum að gefa rúmlega tólf þúsund myndasögur í dag,” segir Þórhallur Björgvinsson, umsjónarmaður myndasagna í Nexus. Búðin er að taka þátt í „Free Comic Book Day“, eða ókeypis myndasögudeginum, ásamt tvö þúsund verslunum um allan heim. „Við verðum með um fjörutíu titla. Fyrir stelpur og stráka, litlu krakkana, fullorðna og allt þar á milli. Það ætti að vera nóg fyrir alla og hver og einn getur fengið nokkur blöð.“ Allar myndasögurnar sem verða gefnar eru prentaðar sérstaklega af þessu tilefni.



„Þetta eru samantekin ráð hjá myndasöguútgefendum, jafnt stórum sem minni spámönnum, til að kynna formið á skemmtilegan máta. Þetta er sjötta árið sem þetta er gert og við höfum verið með frá upphafi.“ Vinsældir myndasagna hafa aukist mikið undanfarin ár. Hver Hollywood-stórmyndin á fætur annarri er gerð eftir teiknimyndasögu, núna síðast Spiderman 3 sem var frumsýnd í gær. Þá hafa myndasögur Hugleiks Dagssonar örugglega stækkað lesendahópinn mikið. Þórhallur segir að þetta hafi gengið vonum framar síðustu ár og aðsókn aukist mikið á milli ára. „Þetta tókst ótrúlega vel í fyrra og myndaðist mikil stemning. Það var svona líka brakandi blíða og röð langt út á götu. Við færðum okkur út fyrir búðina og vorum með borð þar, enda borin von að koma öllu þessu fólki fyrir inni í búðinni.“

Húllumhæið hefst kl. 14 í Nexus, Hverfisgötu 103.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.