Enski boltinn

Jafntefli í fyrsta leik Ramos

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Juande Ramos horfði á sína menn í Tottenham gera jafntefli við Middlesbrough.
Juande Ramos horfði á sína menn í Tottenham gera jafntefli við Middlesbrough. Nordic Photos / Getty Images

Juande Ramos stýrði Tottenham í fyrsta skiptið í dag í ensku úrvalsdeildinni en varð að sætta sig við jafntefli í leik gegn Middlesbrough.

Tottenham er þó komið upp úr fallsæti sem er vitaskuld jákvætt. Wigan er nú í 17. sæti deildarinnar eftir 2-0 tap fyrir Chelsea sem er nú aðeins þremur stigum á eftir toppliðunum tveimur.

Portsmouth var ekki nema ellefu mínútur að komast í 3-0 forystu gegn Newcastle á útivelli en á endanum vann liðið 4-1 sigur. Þar með er Portsmouth komið upp fyrir Manchester City í fjórða sætið en bæði lið eru með 22 stig. City á þó leik til góða.

Yakubu og Johan Djourou horfa hér á eftir boltanum.Nordic Photos / Getty Images

Everton - Birmingham 3-1

Mikel Arteta var kominn aftur í liðið hjá Everton en hann missti af leiknum gegn Luton í enska deildabikarnum í vikunni vegna meiðsla. Yakubu var einnig í byrjunarliðinu en James Vaughan sat á bekknum.

Johan Djourou er búinn að ná sér á meiðslum sem hafa haldið honum frá keppni í tvo mánuði en hann var í byrjunarliði Birmingham í dag. Mikael Forssell var á bekknum en hann hefur einnig verið frá vegna meiðsla.

Arteta byrjaði vel og gaf laglega sendingu á Steven Pienaar sem gaf boltann fyrir markið þar sem Yakubu skilaði knettinum í markið.

Þannig stóðu leikar í hálfleik þar til Olivier Kapo jafnaði metin þegar skammt var til leiksloka. Það gerði hann með skalla eftir hornspyrnu Gary McSheffrey.

En tvö mörk á undir blálokin tryggðu Everton þau þrjú stig sem í boði voru. Fyrst skoraði Thomas Gravesen með föstu skoti og Vaughan bætti því þriðja við eftir undirbúning Gravesen.

Simon Davies fagnar hér marki sínu í dag ásamt þeim Diomansy Kamara og Steven Davis.Nordic Photos / Getty Images

Fulham - Reading 3-1

Lawrie Sanchez vildi greinilega gefa ungu mönnunum hjá Fulham tækifæri en hinn tvítugi Nathan Ashton spilaði sinn fyrsta leik fyrir Fulham í deildinni í dag.

Steve Coppell tefldi hins vegar fram sama liðinu og vann Newcastle í síðustu viku, 2-1. Það þýddi að Brynjar Björn Gunnarsson var í byrjunarliðinu en Ívar Ingimarsson á bekknum.

Simon Davies skoraði fyrsta mark leiksins eftir að leikmönnum Reading mistekst að hreinsa boltann frá marki eftir horn. Davies fékk boltann og skoraði glæsilegt mark úr horni vítateigsins.

Leroy Lita skoraði reyndar mark fyrir Reading í upphafi síðari hálfleiks en það var dæmt af vegna rangstöðu.

Þeir héldu áfram að pressa á heimamenn og fengu loksins uppskorið mark þegar Kevin Doyle skallaði boltann í merkið eftir hornspyrnu Nicky Shorey.

Fulham komst þó aftur yfir þegar varamennirnir David Healy og Shefki Kuqi undirbjuggu mark fyrir Clint Dempsey á laglegan máta. Markið var heldur gegn gangi leiksins á þessum tíma þó.

Það var svo Healy sjálfur sem innsiglaði sigurinn en stoðsendinguna átti Simon Davies.

Darren Bent fagnar marki sínu í dag.Nordic Photos / Getty Images

Middlesbrough - Tottenham 1-1

Gareth Southgate, stjóri Middlesbrough, gerði eina breytingu á liði sínu sem tapaði 4-1 fyrir Manchester United í síðustu viku. Chris Riggott kom í liðið í stað Jonathan Woodgate sem var meiddur.

Juande Ramos stýrði sínum fyrsta deildarleik og var ekki hræddur við að framkvæmar breytingar sem kynnu að vera óvinsælar. Dimitar Berbatov, Robbie Keane og Didier Zakora voru allir settir á bekkinn en í sókninni voru þeir Darren Bent og Jermain Defoe. Á miðjunni var svo hinn ungi Kevin-Prince Boateng sem spilaði í dag sinn fyrsta deildarleik.

Middlesbrough byrjaði betur en Stuart Downing átti fyrsta færi leiksins þegar hann rétt missti af fyrirgjöf Gary O'Neill.

Darren Bent þakkaði hins vegar pent fyrir sig þegar hann skoraði fyrir Tottenham seint í fyrri hálfleik. Hann skoraði með fínu skoti hjá nærstönginni og fagnaði markinu vel og innilega.

Hann var svo nærri því að bæta við öðru en skot hans eftir fyrirgjöf Defoe fór hárfínt framhjá markinu.

Defoe var svo sjálfur nálægt því að skora sjálfur í upphafi síðari hálfleiks en hann missti af boltanum í upplögðu færi.

Paul Robinson var svo vel á verði skömmu síðar er Jeremie Aliadiere átti góðan skalla að marki. Hann kom hins vegar engum vörnum við þegar Luke Young skoraði í kjölfarið með þrumufleyg rétt utan vítateigs.

Þegar um hálftími var til leiksloka skipti Ramos þeim Bent og Defoe út af og í þeirra stað komu þeir Berbatov og Keane inn á.

Það bar hins vegar engan árangur og varð Ramos að sætta sig við jafntefli í fyrsta deildarleik sínum.

Leikmenn Portsmouth fögnuðu fjórum mörkum í dag.Nordic Photos / Getty Images

Newcastle - Portsmouth 1-4

Sam Allardyce stjóri Newcastle gerði fimm breytingar á liði sínu en þeir Shay Given, Geremi, Habib Beye, Emre og Obafemi Martins voru ekki í liðinu. Í þeirra stað komu Steve Harper, Steven Taylor, James Milner, Charles N'Zogbia og Alan Smith.

Hjá Portsmouht var Sulley Muntari kominn aftur í liðið á kostnað Pedro Mendes og Hermann Hreiðarsson var ekki með liðinu vegna meiðsla.

Alan Smith skaut að marki Portsmouth í upphafi leiks en David James varði það þrátt fyrir að það hafi breytt um stefnu af varnarmanni.

En fljótlega eftir það komu þrjár æsilegustu mínútur leiktíðarinnar. Noe Parmont byrjaði með því að þruma knettinum í markið eftir að leikmönnum Newcastle mistekst að hreinsa boltann frá marki eftir horn. Þetta gerðist á áttundu mínútu.

Mínútu síðar bætti Benjani við öðru eftir að hafa komist fram hjá Claudio Cacapa af miklu harðfylgi og skilað knettinum í netið.

Það var svo á elleftu mínútu að John Utaka vann boltann af Cacapa, lék á Harper markvörð og skilaði boltanum í autt markið.

Leikmenn Portsmouth voru ekki hættir að skora því á 16. mínútu skoraði Sol Campbell sjálfsmark. David James varði skot N'Zogbia og reyndi að koma boltanum frá markinu. Boltinn fór hins vegar í Campbell og lak yfir marklínuna.

Það kom engum á óvart skömmu síðar er Cacapa var tekinn af velli og David Rozehnal kom inn á í hans stað. Martröð Newcastle hvað varnarmenn varðar heldur áfram.

Þannig stóðu leikar lengi vel þar til Stephen Taylor skoraði sjálfsmark eftir að aukaspyrna Nico Kranjcar skilaði boltanum í netið.

Lokatölur því 4-1 fyrir Portsmouth og hrakfarir Newcastle halda áfram.

Juliano Belletti horfir hér á eftir knettinum er hann skorar mark sitt í dag.Nordic Photos / Getty Images

Wigan - Chelsea 0-2

Chelsea vann sinn síðasta leik í deildinni með sex mörkum gegn engu gegn Manchester City. Engu að síður gerði Avram Grant þrjár breytingar á liðinu. Shaun Wright-Phillips kom í stað Joe Cole, Wayne Bridge í stað Paulo Ferreira sem er reyndar meiddur og þá var Florent Malouda í byrjunarliðinu á kostnað Salomon Kalou.

Antoine Sibierski fékk að dúsa á bekknum hjá Wigan og Michael Brown, miðvallarleikmaður, kom í liðið í hans stað.

Frank Lampard kom Chelsea á bragðið snemma leiks með laglegu skoti eftir fyrirgjöf Wright-Phillips. Didier Drogba átti sinn þátt í markinu en hann gaf á Wright-Phillips.

Næsta mark Chelsea var glæsilegt. Juliano Belletti var þar að verki og skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið. Skot hans var af 25 metra færi og átti Chris Kirkland ekki roð í skotið.

Þægilegur 2-0 sigur hjá Chelsea í dag og er liðið nú aðeins þremur stigum frá toppliðum Manchester United og Arsenal.
Martin Laursen, leikmaður Aston Villa, hoppar hér upp í boltann en Steve Howard, Derby, situr eftir.Nordic Photos / Getty Images

Aston Villa - Derby 2-0

Scott Carson var kominn í mark Aston Villa á ný sem og Nigel Reo-Coker á miðjuna. Kenny Miller, sóknarmaður Derby, átti hins vegar við meiðsli að stríða og kom Steve Howard í liðið í hans stað.

Zat Knight sátti kot að marki strax í upphafi leiksins af stuttu færi en beint á Stephen Bywater í marki Derby.

Fyrri hálfleikur var markalaus en það entist ekki lengi í þeim síðari. Martin Laursen komst í gegnum rangstöðugildru gestanna þegar hann skoraði eftir aukaspyrnu Ashley Young.

Aðeins þremur mínútum síðar bætti Young sjálfur við öðru marki Aston Villa en Nigel Reo-Coker kom boltanum á hann eftir að skot Agbonlahor var varið af Bywater.

Þar við sat og eiga Derby-menn það enn inni að skora mark á útivelli á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×