Innlent

Slysum og tjónum fjölgar hjá erlendum ökumönnum

Umferðarslysum hefur fækkað hjá Íslendingum en fjölgað meðal útlendinga. Erlendir ökumenn fara líka miklu hraðar um þjóðvegina en Íslendingar og gera sér litla grein fyrir slysahættu og háum sektarúrræðum.

Sérstakt átak er hafið sem miðar að því að fræða erlenda ökumenn um hættuna sem fylgir því að aka á þjóðvegum landsins. Í fyrsta sinn verða sett upp sérstök skilti á þjóðvegina á ensku sem ætlað er að draga úr slysum og óhöppum þegar erlendir ökumenn fara af bundnu slitlagi yfir á mölina.

Á þessu ári hafa útlendingar lent í 738 óhöppum og meira en 150 hafa slasast í þessum óhöppum. Um 5 þúsund bílaleigubílar eru nú á götum í þéttbýli og á þjóðvegunum og hafa tryggingafélögin og eigendur bílaleiga þungar áhyggjur af fjölgun óhappa sem tengjast útafakstri erlendra ökumanna.

Þá virðist sem erlendir ökumenn aki ósjaldan hraðar en lög leyfa og fari langt fram úr Íslendingum að því leyti. Mörgum þeirra er brugðið þegar þeir þurfa að greiða hraðasektirnar. Einar Magnús Magnússon upplýsingafulltrúi Umferðarstofu segir að mikilvægt sé að erlendir ökumenn fái ýtarlegar upplýsingar um hraðasektir hér á landi.

Umferðarstofa hefur bætt sérstökum lið inn á heimasíðu sína sem sýnir nákvæmlega hvað ökumenn þurfa að greiða gerist þeir sekir um hraðakstur. Þessi gögn verða einnig sett fram á erlendum tungumálum til að upplýsa erlenda ökumenn um sektarúrræði á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×