Íslenski boltinn

Textalýsing: Ísland - Spánn

Ísland og Spánn gerðu 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli. Emil Hallfreðsson kom Íslandi yfir á 40. mínútu en Iniesta jafnaði á 86. mínútu. Spánverjar léku einum færri frá 20. mínútu að Xabi Alonso fékk að líta rauða spjaldið.

Góð úrslit hjá íslenska liðinu. Bein textalýsing var frá leiknum og má lesa hana hér að neðan.

Ísland - Spánn 1-1

1-0 Emil Hallfreðsson (40.)

1-1 Iniesta (86.)

Lið Íslands (4-5-1): Árni Gautur Arason; Kristján Örn Sigurðsson, Ragnar Sigurðsson, Ívar Ingimarsson, Hermann Hreiðarsson (f); Kári Árnason, Grétar Rafn Steinsson, Jóhannes Karl Guðjónsson (Baldur Aðalsteinsson 79.), Arnar Þór Viðarsson (Ólafur Ingi Skúlason 69.), Emil Hallfreðsson; Gunnar Heiðar Þorvaldsson (Ármann Smári Björnsson 88.).


94. mín. - Leiknum er lokið, jafntefli 1-1. Úrslitin góð en miðað við þróun leiksins var svekkjandi að fá þetta jöfnunarmark á okkur á 86. mínútu.

93. mín. - Hurð skall nærri hælum upp við mark Spánverja. Emil með aukaspyrnu inn á teig og litlu munaði að hún rataði á íslenskan leikmann.

90. mín. - Þremur mínútum bætt við. Spánverjar sækja stíft. Pressan mikil.

89. mín. - Ármann Smári kominn inn fyrir Gunnar Heiðar.

86. mín. - MARK! Iniesta hefur jafnað metin í 1-1. Komst framhjá Ívari, einn á móti Árna Gauti og náði að skora.

85. mín. - Luis Garcia lætur sig detta innan teigs og heimtar vítaspyrnu. Dómarinn dæmir hinsvegar ekkert.

83. mín. - Hættuleg aukaspyrna Spánverja. Boltanum var rennt á Silva sem fékk mjög gott færi. Skot hans sem betur fer afleitt og hátt yfir markið.

79. mín. - Önnur skipting Íslands. Baldur Aðalsteinsson, leikmaður Vals, er kominn inn fyrir Jóhannes Karl. Baldur að leika sinn fjórða landsleik.

79. mín. - Virðist komin einhver örvænting í gestina. David Villa með skot af löngu færi sem fer víðsfjarri markinu.

74. mín. - Spennustigið er orðið ansi hátt í Laugardalnum. Íslenska liðið lætur finna fyrir sér og það fer í taugarnar á Spánverjum. Ólafur Ingi kom inn sem varamaður hjá Íslandi á 69. mínútu fyrir Arnar Þór.

65. mín. - Gunnar Heiðar fær óvænt ágætis færi en skot hans ver Casillas auðveldlega.

62. mín. - Eftir mikla baráttu fær Grétar Rafn skotfæri rétt fyrir utan teig. Skot hans hitti þó ekki rammann.

57. mín. - Iniesta er kominn inn sem varamaður hjá spænska liðinu fyrir Fernando Torres. Iniesta skoraði eina markið í 1-0 sigri Spánar þegar þjóðirnar mættust á Mallorka fyrr á árinu.

54. mín. - Sókn Spánverja er að þyngjast en íslenska vörnin er gríðarlega sterk og gestunum gengur erfiðlega að skapa sér færi.

48. mín. - Joaquin með skot fyrir utan teig en yfir fer boltinn.

46. mín. - Síðari hálfleikur er hafinn.

45. mín. - Hálfleikur. Ísland er að vinna Spán 1-0. Lítur ansi vel út, einu marki yfir og leikmanni fleiri inni á vellinum.

44. mín. - David Villa nær að koma knettinum í netið en var dæmdur rangstæður og markið stendur því ekki.

40. mín. - MARK!!! Ísland hefur tekið forystuna 1-0. Emil Hallfreðsson skoraði með frábærum og hnitmiðuðum skalla í bláhornið eftir magnaða fyrirgjöf frá Jóhannesi Karli. Algjörlega sanngjörn staða!

37. mín. - Fernando Torres með verulega hættulegt skot. Árni Gautur þurfti að taka á honum stóra sínum og varði vel í horn.

32. mín. - Hætta upp við mark Íslands. Spánverjar eiga skalla að marki sem Árni Gautur ver en heldur ekki boltanum. Sem betur fer rataði boltinn ekki aftur til Spánverja.

Þess má geta að Svíþjóð - Danmörk endaði 0-0.

30. mín. - Íslenska liðið er að spila vel og á hættulegri sóknir. Gunnar Heiðar átti skalla á markið rétt áðan en hann var ekki nægilega fastur og Casillas varði.

27. mín. - Rauða spjaldið hefur riðlað leikskipulagi Spánverja. Þeir hafa þegar gert skiptingu en David Albelda kom inn sem varamaður fyrir Pernia sem hafði fengið gula spjaldið.

21. mín. - Íslendingar fá mjög gott færi. Grétar Rafn renndi boltanum á Jóhannes Karl sem komst í mjög gott færi en skot hans fór naumlega framhjá. Þarna munaði sáralitlu að Ísland tæki forystuna!

20. mín. - RAUTT SPJALD! Xabi Alonso, miðjumaður Spánar, fær að líta rauða spjaldið og gestirnir því orðnir tíu. Alonso virðist hafa sparkað í Arnar Þór þegar hann lá á vellinum. Aðstoðardómarinn sá atvikið og lætur reka Alonso útaf.

18. mín. - Íslenska liðið er mjög líflegt hér í byrjun leiks. Emil Hallfreðsson átti góðan sprett og fyrirgjöf frá vinstri. Talsverð hætta skapaðist og Spánverjar björguðu í horn. Úr hornspyrnunni varð hinsvegar ekkert.

10. mín. - Íslendingar hafa átt sitt fyrsta færi. Fengu aukaspyrnu úti hægra megin. Minnstu munaði að Gunnar Heiðar næði til boltans eftir spyrnuna en knötturinn fór aftur fyrir endamörk í útspark.

6. mín. - Spánverjar eiga fyrsta skotið á markið. David Villa átti hörkuskot úr aukaspyrnu sem Árni Gautur varði vel í horn.

1. mín. - Leikurinn er farinn af stað.

0. mín. - Mínútu þögn er fyrir leik til að minnast Antonip Puerta, spænska landsliðsmannsins hjá Sevilla sem lét lífið á knattspyrnuvellinum þegar hann fékk hjartaáfall.

0. mín. - Það rignir duglega á Laugardalsvellinum, ekki ósvipað og í fyrri viðureign þessara þjóða í keppninni en hann fór fram á Mallorka.

0. mín. - Eiður Smári Guðjohnsen og Ásgeir Gunnar Ásgeirsson eru ekki í leikmannahópi íslenska liðsins í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×