Innlent

Grunur um íkveikju í Breiðholti

Slökkviliðsmenn að störfum við Hraunberg í gær.
Slökkviliðsmenn að störfum við Hraunberg í gær.

Stórt hús við Hraunberg í Breiðholti í Reykjavík sem til skamms tíma hýsti starfsemi skátafélags stórskemmdist í eldi í gærkvöldi. Grunur leikur á að kveikt hafi verið í húsinu.

Tilkynning um mikinn reyk barst slökkviliði um klukkan hálf níu í gærkvöldi og var allt lið frá þremur stöðvum þegar sent á vettvang. Þá logaði víða innandyra og mikið í millilofti, sem er úr timbri. Jafnframt var orðinn mikill hiti í húsinu, sem gefur vísbendingu um að eldurinn hafi kraumað lengi.

Slökkviliðsmenn þurftu víða að rjúfa þak og veggklæðningu til að komast að eldi og glæðum og lauk slökkvistarfi ekki fyrr en á þriðja tímanum í nótt. Húsið er stór skemmt, ef ekki ónýtt. Útihurð á húsinu hafði verið brotin upp og bendir margt til þess að kveikt hafi verið í því en ekki er vitað hver eða hverjir voru þar að verki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×