Innlent

Fulltrúar fjögurra flokka spyrja um kostnað við Baugsmál

MYND/365

Fulltrúar frá öllum flokkum á Alþingi nema Sjálfstæðisflokknum hafa lagt fram fyrirspurn á Alþingi til dómsmálaráðherra um kostnað ríkisins við rannsókn og rekstur Baugsmálsins.

Það eru þau Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingunni, Hjálmar Árnason, Framsóknarflokknum, Kolbrún Halldórsdóttir, Vinstri - grænum, og Sigurjón Þórðarson, Frjálslynda flokknum, sem leggja fyrirspurnina fram saman og er miðað við tímabilið frá ágúst 2002 til þess tíma á árinu 2007 sem upplýsingar liggja fyrir um.

Spurt er um heildarkostnað ríkisins vegna málsins, þar á meðal fjármuni sem farið hafa í rekstur efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, störf sérstaks saksóknara og kostnað sem sem íslenska ríkið hefur verið dæmt til þess að greiða vegna málsvarnarkostnaðar ákærðu í Baugsmálinu.

Enn fremur er spurt hve stór hluti af starfsemi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á framangreindu tímabili hafi farið í Baugsmálið og hversu margar vinnustundir starfsmanna ríkislögreglustjóra hafa farið í málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×