Erlent

Fjöldi þjóðarleiðtoga við útför Jeltsíns

Rússar kvöddu í morgun Bóris Jeltsín, fyrrverandi forseta sinn, sem lést á mánudaginn. Hann var jarðsunginn með viðhöfn í Dómirkju Krists í Moskvu í morgun. Fjölmargir þjóðarleiðtogar voru viðstaddir útförina.

Jeltsín lést af völdum hjartaáfalls á mánudaginn, sjötíu og sex ára að aldri. Hann var fyrsti forseti Rússlands eftir hrun Sovétríkjanna. Lýst hefur verið yfir þjóðarsorg í Rússlandi vegna fráfalls hans.

Fjölmargir þjóðarleiðtogar, bæði fyrrverandi og núverandi, voru viðstaddir útför Jeltsíns í Dómkirkju Krists í Moskvu í morgun. Þar á meðal voru Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, tveir fyrrvernadi Bandaríkjaforsetar, þeir George Bush eldri og Bill Clinton, John Major, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, og Míkhaíl Gorbatsjec, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna.

Jeltsín verður jarðsettur í Novodevítje kirkjugarðinum í Moskvu síðar í dag en ekki á Rauða torginu eins og fyrrverandi leiðtogar Sovétríkjanna.

Fyrir útförina í morgun söfnuðust fjölmargir Rússar saman fyrir utan dómkirkjuna til að votta forsetanum fyrrverandi virðingu sína. Þrátt fyrir það er ljóst að Rússar eru ekki á einu máli um það hversu góður forseti Jeltsín hafi reynst vera.

Á meðan sumir lofsyngja það hvernig hann hafi leitt þjóðina frá kommúnisma til markaðshagkerfis segja aðrir að verk hans hafi leitt til mikils ójöfnuðar í landinu auk þess sem hann hafi lagt út í óvinsælt stríð í Téténíu sem hafi kostað fjölmarga Rússa lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×