Íslenski boltinn

Ég ber engan kala til Guðmundar Mete

Hjörtur Hjartarson
Hjörtur Hjartarson

Sextán liða úrslitum VISA-bikars karla lýkur í kvöld með þremur leikjum. Þór tekur á móti Fylki á Akureyri, Breiðablik og HK mætast í Kópavogsslag og svo tekur 1. deildarlið Þróttar á móti Keflavík. Í þeirri viðureign mætast á ný Hjörtur Hjartarson, leikmaður Þróttar, og Guðmundur Mete, leikmaður Keflavíkur.

Þeir voru í aðalhlutverki í máli síðasta sumars. Þá lenti þeim saman í leik ÍA og Keflavíkur og Hjörtur játaði eftir leikinn að hafa kallað Guðmund Tyrkjadjöful. Hann sagði það þó ekki hafa verið sagt af ástæðulausu enda hafi Guðmundur látið svívirðingarnar rigna yfir hann og meðal annars hótað að drepa sig. Málið fór fyrir aganefnd KSÍ og fékk Hjörtur tveggja leikja bann en Guðmundur eins leiks bann.

„Ég hef hvorki heyrt né séð í Guðmundi eftir þennan leik á Akranesi fyrir ári síðan. Ég heyrði aldrei frá honum og fékk aldrei neina afsökunarbeiðni frá honum en hann verður að eiga það við sjálfan sig," sagði Hjörtur sem kom meðal annars fram í Kastljósinu, sagði sínu sögu, játaði brot sitt og baðst afsökunar. Guðmundur og Keflvíkingar neituðu að tjá sig um málið.

„Eflaust munu menn fylgjast með okkur en í ljósi atburða síðustu viku þá muni fólk almennt fylgjast með viðbrögðum Keflavíkurliðsins í heild sinni. Hvernig þeir vinna úr þessu máli á Akranesi," sagði Hjörtur en hvernig leggst það í hann að mæta Guðmundi á ný?

„Ég hef ekkert spáð í það sérstaklega en ég get ekki neitað því að ég hló létt þegar ég sá að við drógumst gegn Keflavík. Það er hvorki kvíði né beygur í mér að mæta honum. Þessi leikur verður ekkert öðruvísi fyrir mér en aðrir enda ber ég engan kala til Guðmundar og hef ýtt þessu máli út af borðinu hjá mér. Ég skulda Guðmundi ekki neitt og hann skuldar mér ekki neitt þó svo hann hafi aldrei séð ástæðu til þess að biðja mig afsökunar. Það væri samt almennilegt af honum ef hann útskýrði einhvern tímann sína hlið í málinu," sagði Þróttarinn Hjörtur Hjartarson. Ekki náðist í Guðmund Mete í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×