Innlent

Eftirlaunum þingmanna og ráðherra breytt á næsta þingi

Samkvæmt heimildum Vísis munu breytingar á eftirlaunum þingmanna og ráðherra komast á dagskrá á alþingi í vetur. Háttsettur heimildarmaður Vísis segir að „það kæmi sér ekki á óvart" að stjórnarfrumvarp með breytingunum yrði lagt fram á þinginu en undirbúningsvinna við frumvarpið er nú í gangi.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru breytingar á eftirlaunum þingismanna og ráðherra boðaðar. Þar stendur: „Eftirlaunakjör alþingismanna og ráðherra verði endurskoðuð og meira samræmi komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings."

Eftirlaunum þingmanna og ráðherra var breytt í árslok 2003 og olli málið mikilum deilum í þjóðfélaginu. Með breytingunum náðu þessir tveir hópar eftirlaunaréttindum sem voru langt umfram það sem gerist meðal almennings.

Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, sagði árið 2005 að hann vildi breyta frumvarpinu frá 2003 og að allir flokkar væru sammála um slíkt. Ári seinna, eða 2006, þegar hann lét af embætti sagði hann að ekki hefði náðst samstaða í forsætisnefnd þingsins um umfang breytinganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×