Innlent

Vilja fara stystu leið

Stytting þjóðvegarins við Hornafjörð þolir enga bið segir forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar. Hann segir bæjarstjórn einhuga í afstöðu sinni um málið enda ríkir almannahagsmunir í húfi. Landeigendur á Nesjum við Hornafjörð hafa kært úrskurð umhverfisráðherra frá í maí og vilja að aðrar leiðir verði farnar.

Fyrirhuguð stytting þjóðvegarins hefur lengi verið á teikniborðinu. Vegagerðin lagði fram þrjár veglínur vegna framkvæmdanna og sem munu stytta veginn um 10 til 12 kílómetra eftir því hvaða leið er valin. Þær ná frá hringvegi vestan Hornafjarðarfljóta, yfir Hornafjarðarfljót og að hringvegi skammt austan Hafnarvegar sem liggur að Höfn í Hornafirði. Þessar leiðir voru allar sendar í umhverfismat. Bæjarstjórn Hornafjarðar fundaði vegna málsins í síðustu viku og komst að þeirri niðurstöðu að fara leið 3.

Landeigendur á Nesjum við Hornafjörð eru ósáttir við að fleiri leiðir hafa ekki verið settar í umhverfismat en þessar þrjár og hafa kært úrskurð umhverfisráðherra. Þeir segja valkostina þrjá ótæka, leiðirnar fari yfir votlendi sem muni hafa í för með sér stórkostleg umhverfis- og náttúruspjöll á einstöku ósnortnu landi þeirra. Þá muni fyrirhugað vegstæði skerða eignarlönd, rýra möguleika á landnýtingu, valda spjöllum á ræktunarlöndum og spilla beitilöndum.

Árni Rúnar Þorvaldsson, forseti bæjarstjórnar segist vonast til að kæra landeigendanna tefji ekki málið enda þoli lagning vegarins ekki bið, ríkir almannahagsmunir séu í húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×