Innlent

HÍ í hópi þeirra 100 bestu fyrr en áformað var

MYND/Gva

Háskóli Íslands brautskráir tæplega 400 kandidata, þar af 111 með meistaragráðu við hátíðlega athöfn sem hófst í Háskólabíó nú klukkan eitt í dag. Í ræðu sinni segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands m.a.að skólinn hafi stigið mjög markverð skref í átt til þess að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi á síðustu tveimur árum, svo að markmiðið sem sumir töldu óraunhæft í upphafi var það alls ekki. Skólinn þurfi að sækja hraðar og ná markmiði fyrr en hann ætlaði sér í upphafi.

Kristín segir að skýrar vísbendingar séu um að slakur hagvöxtur í Evrópu síðustu 30 ár í samanburði við Bandaríkin stæði í samhengi við slakari árangur í uppbyggingu háskólarannsókna. Um alla Evrópu stæði nú yfir endurskipulagning háskólanna með það að markmiði að snúa við taflinu og leggja grunn að framtíðarhagvexti og velsæld með uppbyggingu háskólarannsókna.

Íslendingar hafi farið rétt af stað með auknum framlögum til háskólastigsins og Háskóli Íslands vinni nú mjög ákveðið að markmiðum um að komast í fremstu röð, og miði vel. Hins vegar þurfi enn að herða róðurinn vegna þess að alþjóðleg samkeppni harðni stöðugt. Það þurfi að byggja hraðar upp rannsóknaþáttinn í starfinu og gera háskólann að alþjóðlegri stofnum með því að laða hingað erlenda vísindamenn og stúdenta.

Einnig þurfi að nýta enn betur möguleika til að tengja Háskólann með samstarfssamningum við bestu menntastofnanir í heimi. Loks segir Kristín að liður í þessari stefnu hljóti að vera nánari samvinna íslenskra háskóla á ýmsum sviðum til að nýta sem best þann styrk sem er í menntakerfinu hér á landi.

Þrír starfsmenn Háskóla Íslands hlutu viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi, dr. Jórun Erla Eyfjörð prófessor í læknadeild fyrir framlag sitt til vísinda, dr. Gylfi Zoega prófessor í viðskipta- og hagfræðideild fyrir framlag sitt til kennslu og Eva Dagmar Steinsson deildarstjóri launaskrifstofu HÍ fyrir framlag sitt til góðra starfshátta og starfsmannamála.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×