Innlent

Erlendir bankar gagnrýna hækkað lánshæfismat

Skotlandsbanki og einn stærsti banki Frakklands gagnrýna greiningafyrirtækið Moody's harðlega fyrir að hækka lánshæfismat íslensku bankanna. Þeir segja að þar með sé verið að segja að íslenska ríkið muni hlaupa undir bagga með íslensku bönkunum ef illa fer.

Greiningarfyrirtækið Moody's hækkað lánshæfismat íslensku viðskiptabankanna Landsbanka, Glitnis og Kaupþings nýverið upp í hæstu einkun eða AAA. Tom Jenkins hjá greiningardeild Skotlandsbanka í Lundúnum, segir að með þessu sé verið að fíflast með markaðinn. En með breytingunni lækka afföll af skuldabréfum í íslensku bönkunum og þau gætu jafnvel orðið jákvæð, þ.e.a.s. það getur skapast umframverð fyrir íslensku bréfin.

Þess er skemmst að minnast þegar afföll af skuldabréfum í íslenskum bönkum jukust um allt að 11% á síðasta ári þegar Fitch Rating lækkaði lánshæfimat þessara sömu banka. Jenkins hjá Skotlandsbanka segir að nú sé verið að gefa í skyn að kaup á skuldabréfum Kaupþings til dæmis, séu án áhættu, en það sé alls ekki svo.

Moody's hækkaði matið eftir að fyrirtækið breytti reglum sínum varðandi óbeina ríkisábyrgð að baki bönkunum. Það þýðir að Moddy's metur það svo að íslenska ríkið muni ekki láta hugsanleg áföll íslensku bankanna gerast án þess að hlaupa undir bagga. Það sé of mikið í húfi fyrir íslensku þjóðina.

Suki Mann hjá Societe Generale, einum allra stærsta banka Frakklands, tekur undir gagnrýni Skotlandsbanka. Hann segir skilaboð Moody's vera: Kaupið bréf í íslensku bönkunum, haldið fast í þau og hafið engar áhyggjur, stjórnvöld munu redda þeim ef illa fer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×