Innlent

Skógrækt og landgræðsla gegn mengun

Skógrækt á Íslandi gæti orðið gróðafyrirtæki þegar mengunarkvótar verða markaðsvara, að mati sérfræðings Skógræktar ríkisins. Hann segir að með aukinni skógrækt og landgræðslu ætti að vera unnt að binda tvo þriðju hluta af útstreymi gróðurhúsalofttegunda hérlendis.

Skógrækt ríkisins og Landgræðslan sendu í gær frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þær lýsa sig tilbúnar til stórra aðgerða til að draga úr skaðsemi gróðurhúsalofttegunda. Trjáviður er að helmingi kolefni, sem plöntur draga í sig úr andrúmsloftinu. Landshlutaverkefni í skógrækt hafa sett sér það markmið að á næstu fjörutíu árum verði fimm prósent af láglendi landsins þakin skógi. Til að ná þessu þyrftu Íslendingar þó að þrefalda gróðursetningu frá því sem nú er, að mati Arnórs Snorrasonar skógfræðings. Það myndi hins vegar skila sér margfalt til baka ef horft er á spár um verðmæti mengunarkvóta. Hann hvetur til þess að komið verði á innanlandsmarki með mengunarkvóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×