Íslenski boltinn

Stefán: Eyjólfur velur mig ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán í leik með íslenska landsliðinu gegn Möltu fyrir tveimur árum.
Stefán í leik með íslenska landsliðinu gegn Möltu fyrir tveimur árum. Nordic Photos / AFP

Stefán Gíslason telur litlar líkur á því að hann fái aftur tækifæri með íslenska landsliðinu í knattspyrnu á næstunni. Hann telur ólíklegt að Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari muni velja sig í hópinn fyrir verkefnin sem eru framundan.

Stefán er á mála hjá danska úrvalsdeildarliðinu Bröndby og hefur spilað alla leiki tímabilsins til þessa nema einn. "Ég hef svo sem ekki verið að spila neitt mjög vel en það tekur auðvitað tíma fyrir mig að komast almennilega í takt við liðið," sagði Stefán við Vísi.

Hann lék síðast með landsliðinu gegn Svíum ytra í vor en íslenska liðið steinlá í þeim leik, 5-0. Hann er einn örfárra sem hafa ekki fengið aftur kallið frá Eyjólfi síðan þá.

"Ég er auðvitað ekki sáttur við frammistöðu mína í síðustu landsleikjum. Alls ekki. Að því leyti til skildi ég ákvörðun hans vel. En á móti kemur að ég er ekki sá eini sem hefur staðið sig illa í landsleikjunum. Við erum fleiri en einn og fleiri en tveir."

Hann býst því ekki við að verða valinn í landsliðið sem mætir Lettum og Liechtenstein í næsta verkefni íslenska landsliðsins.  

"Ekki eins og staðan er núna. Nú datt Brynjar Björn úr hópnum vegna meiðsla fyrir síðustu leiki og enginn var kallaður inn í hans stað. En það er aldrei að vita hvað gerist ef kallið kemur. Það verður bara að koma í ljós." 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×