Íslenski boltinn

Sandefjord gerði Kjartani Henry tilboð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Henry í baráttu við Axel Witsel, leikmann belgíska U-21 landsliðsin í síðasta mánuði.
Kjartan Henry í baráttu við Axel Witsel, leikmann belgíska U-21 landsliðsin í síðasta mánuði. Nordic Photos / AFP

Kjartan Henry Finnbogason sagði í samtali við Vísi að norska 1. deildarliðið Sandefjord hafi gert honum samningstilboð, rétt eins og annað lið á Norðurlöndunum.

Vísir hefur einnig heimildir fyrir því að Valsmenn hafi einnig gert honum tilboð en því vildi Kjartan Henry hvorki játa né neita.

Það mátti þó heyra á Kjartani að hann væri ekki spenntur fyrir tilboði Sandefjord.

„Ég vil ekki fara í atvinnumennsku bara til að fara í atvinnumennsku. Ef ég fer er það vegna þess að það vekur áhuga minn.“ 

Kjartan hefur gerst víðförull síðan hann fór frá Celtic í sumar og segir hann að með því hafi hann gert ákveðin mistök.

„Ég ætla nú að taka þessu með ró og velja þá kosti sem mér finnst áhugaverðastir,“ sagði hann. Kjartan Henry hefur staðið sig vel með U-21 landsliði Íslands og fengið fyrirspurnir víða að, bæði frá Norðurlöndunum sem og frá tveimur liðum í Belgíu.

„Það er nú frí í flestöllum deildum í Skandinavíu og ætla ég að sjá til hvað gerist þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar. En ég útiloka ekki neitt, heldur ekki að spila á Íslandi.“

Hann segir þó að krafa Celtic um uppeldisbætir flækir málin fyrir sér. „Celtic vill fá 150 þúsund evrur fyrir mig sem mér finnst vera of mikið. Umboðsmaður minn, Ólafur Garðarsson, hefur unnið í því að lækka þessa upphæð en þeir eru ekkert allt of liðlegir. Þeir hafa þó samþykkt að ef ég fer til íslensks liðs vilja þeir aðeins fá tuttugu þúsund pund. Það gæti því komið til greina að spila á Íslandi.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×