Innlent

Geir og Guðni væntanlega verið teknir til bæna

Valgerður Sverrisdóttir í pontu á Akureyri í dag
Valgerður Sverrisdóttir í pontu á Akureyri í dag MYND/N4/Þorvaldur

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, gerði karlrembu og viðhorf til kvenna í pólitík að umræðuefni sínu í óvenju beinskeyttri ræðu við Háskólann á Akureyri í dag. Hún nafngreindi meðal annars nokkra karlkyns stjórnmálamenn sem að hennar mati hafa sýnt kollegum sínum af gagnstæða kyninu óvirðingu.

„Ég vil efast um að það sé meðvitað, en í viðureignum á hinu pólitíska sviði gerast karlmenn oft sekir um særandi ummæli í garð kvenna sem jaðra við kvenfyrirlitningu," sagði Valgerður í ræðunni. „Þannig er mér í fersku minni þegar Sighvatur Björgvinsson lét þau orð falla um Ingibjörgu Pálmadóttur, sem tók við af honum í embætti heilbrigðisráðherra, að hún væri barnaleg og reynslulaus. Hefði hann sagt þetta við karlmann í embætti ráðherra? Ég leyfi mér að efast um það. Össur Skarphéðinsson kallaði mig papparáðherra á fyrstu vikum mínum í embætti. Hefði hann haft þvílík ummæli uppi um karlmann? Næsta örugglega ekki. Einnig voru ýmsir sem höfðu uppi háðuleg orð um enskukunnáttu mína þegar ég steig mín fyrstu skref sem utanríkisráðherra. Voru slík orð höfð uppi um t.d. Davíð Oddsson á sínum tíma? Mig rekur ekki minni til þess. Góðir félagar mínir Guðni Ágústsson og Geir H. Haarde hafa látið falla miður heppileg orð um konur, og ég þykist reyndar vita að eiginkonur þeirra hafi tekið þá til bæna fyrir vikið!"

„Ég þori að fullyrða að konur sem sækjast eftir ábyrgðarstöðum reka sig á mun meira mótlæti en karlar," sagði ráðherrann. „Konur eru einfaldlega settar undir aðra mælistiku en karlar og verða oft fyrir meiri og óvægnari gagnrýni. Árangur minn og framganga í embætti utanríkisráðherra er t.d. veginn og metinn út frá öðrum forsendum en hvað fyrirvera mína varðar," sagði Valgerður einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×