Innlent

Fimm lífeyrissjóðir sameinast

MYND/365

Stjórnir fimm lífeyrissjóða hafa undirritað viljayfirlýsingu um að sameina sjóðina. Landsbanki Íslands mun sjá um rekstur sjóðanna ef af sameiningu verður en sjóðsfélagar verða um sex þúsund talsins.

Sjóðirnir fimm eru Lífeyrissjóður Eimskipafélags Íslands, Lífeyrissjóður Flugvirkjafélags Íslands, Lífeyrissjóður Mjólkursamsölunnar, Eftirlaunasjóður starfsmanna Olíuverzlunar Íslands og Lífeyrissjóður starfsmanna Áburðaverksmiðju ríkisins.

Stjórnir sjóðanna munu leggja viljayfirlýsinguna fram á næsta ársfundi þeirra en jafnframt gengu stjórnir sjóðanna frá áframhaldandi rekstrarsamningi við Landsbanka Íslands.

Að sögn Davíðs Harðarsonar, hjá Eignastýringarsviði Landsbankans, mun sameining sjóðanna tryggja rekstrarhagræði þeirra til lengri tíma. Þá segir hann sameininguna einnig dreifa áhættu sjóðsfélaga en sjóðirnir fimm eru með þeim minnstu á landinu.

Sjóðirnir eru lokaðir fyrir nýjum iðgöldum og eru sjóðsfélagið tæplega sex þúsund talsins. Sjóðirnir eru samtals um 10 milljarðar krónur að stærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×