Innlent

Umdeild mannvirki eins og virkjanir hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, segir að gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustu geti falist í þeim stöðum sem verða til við umdeildar framkvæmdir einsog við byggingu virkjana á borð við þá við Kárahnjúka.



Forstjóri Icelandair segir að dæmi séu um að aðstaða sem skapast hafi vegna óvinsælla verka mannanna hafi orðið að vinsælustu ferðamannastöðum á Íslandi. Jón Karl bendir á Bláa lónið sem dæmi um þetta en það hafi orðið til fyrir slysni en sé engu að síður einn þeirra staða sem ferðamenn séu hvað ólmastir í að sjá og njóta á Íslandi.

Jón Karl segir að Íslendingar ofmeti talsvert að neikvæð umræða um virkjanir hafi slæm áhrif á ímynd Íslands, yfir 75 prósent af orkunni á Íslandi sé endurnýtanleg og þetta veki mikinn áhuga hjá ferðamönnum.

Jón Karl segir að engar tölur sýni að samdráttur hafi orðið í ferðaþjónustu á Íslandi vegna umdeildra aðgerða hér, til dæmis vegna hvalveiða eða framkvæmdanna við Kárahnjúka.

Hann segir að ímynd skapist á gríðarlega löngum tíma, og neikvæð umræða á tímabili kalli ekki endilega á slæma niðurstöðu þegar öllu er á botninn hvolft.

Ýmis óvinsæl mannvirki hjálpi jafnvel fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem hafi orðið til fyrir allt annan tilgang en að þjónusta ferðamenn. Þannig hafa virkjanirnar aðdráttarafl fyrir ferðamenn og vegir vegna virkjana séu víða ferðamannaleiðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×