Innlent

Afleitt gsm samband skapar hættu í Dalabyggð

Gunnólfur Lárusson, sveitastjóri Dalabyggð, segir að afleitt gsm-samband í Dölunum sé til skammar en sveitirnar í nágrenni Búðardals eru flestar utan slíkrar þjónustu. Sveitarstjórinn segir að fólk sem lendi í slysum á þjóðvegunum þar í sveit verði að treysta á guð og lukkuna.

Sveitarstjórinn í Dalabyggð segir að það sé lykilatriði fyrir öryggi vegfaranda í Dölunum að þeir nái símasambandi við lögreglu eða neyðarlínu þegar þeir aki um þjóðveginn vestur á firði. Hann fullyrðir að ökumenn séu alls ekki vel settir á þessari leið.Gunnólfur segir að af þessu sambandsleysi hljótist mikil hætta.

Síminn vinnur nú að því að fylla í þær eyður sem eru í gsm-fjarskiptakerfinu og tryggja þannig að þeir hlutar sem eru utan sambands á helstu þjóðvegum landsins komi inn.

Síminn vinnur þetta verk í kjölfar útboðs frá Fjarskiptasjóði og er stefnan að þessu verki verði lokið í janúar á næsta ári. Þá verður búið að bæta við 500 kílómetrum inní fjarskiptakerfið á þjóðvegi 1 og á 5 fjölförnum fjallvegum.

Sveitastjórinn í Dalabyggð vill hins vegar að menn hjá Símanum spýti í lófana og taki á þessu hið snarasta.

Sveitastjórinn segir að það sé ekki einungis gsm samband sem sé niðri eða hökti á stórum svæðum, því nettengingar við sveitirnar séu ekki til staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×