Lífið

Róbert vinnur heimildarþætti um Norðurlandabúa í Peking

Róbert hefur verið búsettur í Peking síðan um áramót
Róbert hefur verið búsettur í Peking síðan um áramót MYND/365

Róbert Douglas sem hefur meðal annars gert myndirnar Strákarnir okkar, Maður eins og ég og Íslenska drauminn vinnur nú að gerð heimildaþátta um Norðurlandabúa í Peking. Þættirnir eru framleiddir af norska fyrirtækinu Nordisk og hefur Róbert unnið að gerð þeirra síðan um áramót.

Þættirnir verða sex talsins og verður sjónum beint að fólki frá öllum Norðurlöndunum. Rætt verður við Svía, Dani, Norðmenn, Finna, Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga en tvö síðastnefndu löndin verða saman í þætti. Rætt verður við að minnsta kosti þrjá einstaklinga frá hverju landi og hefur Robert verið að leita þá uppi síðan snemma í vor. Þeirri leit er ekki alveg lokið en tökur eru þó hafnar.

"Viðmælendur eru á öllum aldri og úr öllum stéttum. Til dæmis er rætt við sænskan landsliðsþjálfara kínverska kvennalandsliðsins í fótbolta og svo sænskan tölvuforritara hjá Sony Erikson sem spilar í Death metal hljómsveit á kvöldin," segir Róbert.

"Fólkinu er fylgt eftir bæði í starfi og einkalífi og er fylgst með hvernig það aðlagast. Sumir eru nýkomnir til borgarinnar en aðrir hafa dvalið þar um áratugaskeið. Í öllum þáttunum verður síðan tenging við Ólympíuleikanna sem haldnir verða í Peking á næsta ári."

Stefnt er að því að þættirnir verði tilbúnir fyrir næsta sumar þegar Ólympíuleikarnir hefjast og á Róbert von á því að þeir verði sýndir á öllum Norðurlöndunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.