Innlent

Maður tók konu sína í gíslingu í Básum í Þórsmörk

Maður á fimmtugsaldri gekk berserksgang í Básum í Þórsmörk í nótt og hélt konu sinni í gíslingu um tíma. Hann er grunaður um að hafa beitt eiginkonu sína ofbeldi.



Lögreglunni á Hvolsvelli barst í nótt tilkynning um að maður hefði í hótunum við eiginkonu sína í Þórsmörk auk þess sem hann hefði í hótunum við aðrar konur á svæðinu.

Lögreglan fór á staðinn en að hennar sögn er maðurinn auk þess grunaður um að hafa beitt eiginkonu sína ofbeldi.

Lögreglan á Hvolsvelli sagði í samtali við Stöð 2 í morgun að áður en lögreglan hefði komist á svæðið hefði maðurinn stigið upp í bíl eiginkonu sinnar, en hann hefur ekki ökuleyfi, og ekið bílnum próflaus og undir áhrifum áfengis áleiðis til byggða.

Hann var stöðvaður á för sinni, handtekinn og fluttur í fangageymslur á Selfossi. Maðurinn var yfirheyrður í dag og er málið sem varðar ætlaða líkamsárás mannsins gegn eiginkonunni í rannsókn.

Á Hvolsvelli voru öll tjaldstæði full í nótt og mikil ölvun og erill hjá lögreglu. Fjórir ökumenn voru handteknir þar grunaður um ölvun við akstur.

Lögreglan á Hvolsvelli kærði einnig hartnær fimmtíu ökumenn fyrir of hraðan akstur um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×