Innlent

Stór markaður fyrir íslensku kafbátana

Fulltrúar Hafmyndar, Torfi Þórhallsson (til vinstri) og Arnar Steingrímsson, sýndu fréttamönnum smákafbátinn Gavia, sem minnir á lítið tundurskeyti.
Fulltrúar Hafmyndar, Torfi Þórhallsson (til vinstri) og Arnar Steingrímsson, sýndu fréttamönnum smákafbátinn Gavia, sem minnir á lítið tundurskeyti. MYND/GVA

Hátæknifyrirtækið Hafmynd hefur selt tvo sjálfstýrða smákafbáta til erlendra ríkja, en þeir eru meðal annars notaðir við umhverfisrannsóknir og sjómælingar, auk þess að leita að aðskotahlutum á borð við sprengjur í höfnum.

Verðmæti samninganna eru tæpar 100 milljónir króna, og er vonast til þess að seldir verði fimm til átta kafbátar á þessu ári.

Annar báturinn var seldur til rannsóknarstofnunar á vegum ástralska varnarmálaráðuneytisins, en hinn var seldur til sjóhers „nágrannaþjóðar innan NATO“, sagði Torfi Þórhallsson, framkvæmdastjóri Hafmyndar, á fundi með fréttamönnum í Iðnó í gær. Hann segir að ekki sé hægt að greina frá því að svo stöddu hverjum síðari kafbáturinn var seldur vegna óska kaupandans.

Hafmynd hafði áður selt þrjá sjálfstýrða kafbáta, en kaupendurnir voru Bandaríkjafloti, Háskóli Bresku Kólumbíu og Rannsóknarráð Kanada.

Torfi sagði stóran markað fyrir kafbátana, Hafmynd sé afar framarlega í þessum geira og stærri fyrirtæki séu fyrst núna að taka við sér, sem gefi Hafmynd ákveðið forskot.

„Öryggismál þjóða, og þá sérstaklega varnir gegn hryðjuverkum, eru mjög ofarlega á baugi, og þetta er ört vaxandi markaður,“ sagði Torfi.

Hafmynd hefur nýverið hlotið viðurkenningu frá rannsóknarfyrirtækinu Frost & Sullivan í London fyrir byltingarkennda nýjung í hafnareftirliti við hönnun á Gavia-kafbátnum.

Kafbátarnir eru af gerðinni Gavia, og eru 1,7 metrar að lengd, vega um 50 kg með grunnbúnaði, og komast þeir fullkomnustu á allt að tvegga kílómetra dýpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×