Ástæðan fyrir því að söngkonan Amy Winehouse aflýsti tónleikum sínum í Los Angeles á dögunum var ástarsorg. Winehouse, sem gaf út plötuna Back to Black fyrr á árinu, hætti með kærasta sínum Alex Jones-Donelly fyrr í mánuðinum.
Vegna mikils annríkis á tónleikaferð sinni um Bretland og Bandaríkin hafði hún ekki haft neinn tíma til að syrgja sambandsslitin. Auk tónleikanna í Los Angeles hafði hún áður aflýst tvennum tónleikum í London vegna „ófyrirsjáanlegra aðstæðna“.
„Amy elskaði Alex rosalega mikið og var í miklu uppnámi þegar þau hættu saman,“ sagði vinkona hennar. „Hún er mjög þreytt og henni líður illa. Henni finnst hún ekki geta gefið sig alla í tónleikana á meðan henni líður svona.“
Winehouse hefur fengið frábærar viðtökur við Back to Black. Fór platan beint í sjöunda sæti bandaríska vinsældalistans, sem er besti árangur breskrar söngkonu með sína fyrstu plötu þar í landi. Gagnrýnandi Fréttablaðsins var sömuleiðis hrifinn af plötunni, gaf henni fjórar stjörnur af fimm mögulegum.